Stjórnhættir
Stjórn Arev verðbréfafyrirtækis staðfestir með þessari yfirlýsingu að félagið fylgir leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja, sbr. 6. útgáfu Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland og Samtaka atvinnulífsins um leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja svo og meginreglur OECD um stjórnarhætti fyrirtækja. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002 skal fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Jafnframt ber félaginu að gera grein fyrir stjórnarháttunum á vefsíðu sinni. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi Arev. Nánari upplýsingar um Fjármálaeftirlitið ásamt yfirlit yfir helstu lög og reglur sem um starfsemi Arev gilda á hverjum tíma má finna á heimasíðu Seðlabanka Íslands www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit/.
Stjórn Arev hefur sett saman í handbók stefnur og verklagsreglur er varða innri starfsemi félagsins, þar á meðal reglur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem og ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum.
Innri endurskoðun hefur verið framkvæmd af Enor ehf. samkvæmt verksamningi og tekur mið af lögum um fjármálafyrirtæki og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um störf endurskoðunardeildar fjármálafyrirtækja.
Ársreikningur Arev hefur verið gerður í samræmi við lög um ársreikninga og reglum um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða og er kjörinn endurskoðandi PwC á Íslandi.
Stjórn Arev hefur sett reglur um áhættustýringu Arev og áhættustefnu. Tilgangur áhættustefnunnar er að áhættustýring Arev sé markviss og skilvirk sem og að koma á gagnsæi að því er varðar áhættutökur Arev á öllum stjórnunarstigum, allt frá stjórn til rekstrareininga og einstaklinga sem taka beinan þátt í daglegum rekstri og ákvarðanatöku um áhættu. Stjórn Arev verðbréfafyrirtækis ber ábyrgð á áhættustýringu félagsins en framkvæmdastjóri gagnvart stjórn.
Stefna félagsins í samfélagsmálum er að starfa á ábyrgan hátt á öllum sviðum og sýna ábyrga hegðun sem þátttakandi í samfélaginu. Í þessu felst að félagið fer í einu og öllu eftir lögum og reglum og er virkur þátttakandi í að efla samfélagið, með því að taka ákvarðanir og framkvæma þær á eftirsóknarverðan hátt fyrir samfélagið. Í framkvæmd samfélagslegrar ábyrðar Arev er litið til eftirfarandi þátta: innviða og stjórnhátta félagsins, starfsfólks, umhverfis og samfélagsins sem við búum í. Með stefnu um stjórnarhætti eru megin reglur um starfsemi félagsins lagðar, í stefnu um mannauðsmál eru málefni starfsmanna og félagsins mótuð. Varðandi umhverfismál er lögð áhersla á að virða og meta umhverfi okkar og í stefnu um samfélagsmál er lögð áhersla á að stuðla að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Skrifleg viðmið um siðferði og stefnu um samfélagslega ábyrgð Arev hafa ekki verið gerð sérstaklega. Nýlega tók gildi löggjöf um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfa fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem innleiðir tvær reglugerðir Evrópusambandsins. Stjórn Arev verðbréfafyrirtækis hefur sett félaginu stefnu um framfylgd reglnanna með hliðsjón af umhverfismarkmiðum þeirra. Þá skal félagið hafa að leiðarljósi að kalla eftir upplýsingum og staðfesta hvort atvinnustarfsemi viðskiptavina er hæf samkvæmt reglugerðum ESB og að upplýsingagjöf þeirra sé gagnsæi auk þess hvort atvinnustarfsemin geti talist vera umhverfislega sjálfbær til að staðreyna að ekki sé hætta að um grænþvott er að ræða. Þá ber að líta til viðmiða Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, auk heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með áherslu á : (5) Jafnrétti kynjanna, (8) góða atvinnu og hagvöxt, (10) aukinn jöfnuð, (12) ábyrgð neysla og framleiðsla og (13) aðgerðir gegn loftlagsmálum.
Í stjórn Arev eru þrír stjórnarmenn og tveir varamenn. Aðalfundur kýs stjórn og varastjórn til eins árs í senn. Framkvæmdastjóri er ráðinn af stjórn. Stjórnarfundir eru a.m.k. 6 árlega. Síðasti aðalfundur félagsins var haldinn 20. mars 2024 og var stjórn endurkjörin á fundinum.
Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum Arev á milli hluthafafunda. Stjórnin hefur sett sér starfsreglur og samkvæmt þeim er meginhlutverk stjórnar að hafa eftirlit með rekstri og efnahagsstöðu félagsins og að fjárhagsupplýsingar séu réttar og áreiðanlegar. Stjórn skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna Arev. Starfsmannastefna félagsins kveður á um að stjórn ráði
framkvæmdastjóra félagsins, setur honum erindisbréf og hefur eftirlit með störfum hans, ráðningarsamningar starfsmanna innhalda ekki ákvæði um kaupaukaréttindi. Þá kemur stjórn fram fyrir hönd Arev fyrir dómstólum og stjórnvöldum og ákveður hverjir hafi umboð til að skuldbinda félagið.
Stjórn Arev ber að meta þörf fyrir stofnun undirnefnda eftir stærð og umfangi félagsins, svo og samsetningu stjórnar. Á liðnu starfsári taldi stjórn Arev ekki þörf fyrir stofnun undirnefnda á vegum stjórnar.
Á síðasta starfsári voru haldnir 6 stjórnarfundir í félaginu. 100% mæting var á alla stjórnarfundi .
Á heimasíðu félagsins http://arev.is er að finna starfsreglur stjórnar.
Stjórn Arev verðbréfafyrirtækis var kosin á aðalfundi félagsins þann 20. mars 2024 og hana skipa 3 aðalmenn, stjórnin kýs sér formann úr hópi stjórnarmanna. Allir stjórnarmenn voru endurkjörnir og ekki nýtt fyrirkomulag um tilnefningarnefnd.
Óskar garðarsson – Formaður stjórnar. Frá árinu 2014 hefur Óskar verið framkvæmdastjóri Dögunar sem er sjávarútvegsfyrirtæki með megin starfsemi á Sauðárkróki. Félagið sérhæfir sig í veiðum og vinnslu á rækju. Hann er með BSc gráðu frá Lancaster University (1992) og framhaldsgráðu (postgraduate certificate in business studies) frá Warwick University (2007 ). Á árabilinu 2009-2013 starfaði hann hjá SJ1 ehf sem forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri. SJ1 annaðist eignastýringu og ráðgjöf fyrir tengda aðila. Óskar starfaði sem fjárfestingastjóri hjá Milestone á árunum 2006-2009. Óskar var fjármálastjóri og síðar annar af framkvæmdastjórum Eskju hf á árabilinu 2001-2006. Óskar hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja. Fyrst kosinn í stjórn Arev verðbréfafyrirtækis í maí 2017.
GUNNAR INGIMUNDARSON – Meðstjórnandi. Gunnar lauk Cand. Oecon prófi frá Háskóla Íslands árið 1981. Starfaði hjá Félagi íslenskra iðnrekenda til ársins 1986. Það ár stofnaði Gunnar ásamt fleirum hugbúnaðarfyrirtækið Hug hf. og var framkvæmdastjóri þess allt til ársins 1999 þegar það var selt. Gegndi stjórnunarstörfum með nýjum eigendum og tók þátt í ýmsum sameiningum á árunum 2000-2007. Tók það ár við starfi framkvæmdastjóra HugarAx, sameinaðs fyrirtækis Hugar hf. og AX hugbúnaðarhúss. Gegndi því starfi til ársins 2009. Varð þá hluti af stjórnendateymi Skýrr hf (síðar Advania) og starfaði þar til ársins 2016. Gunnar gegnir nú starfi framkvæmdastjóra ráðgjafar hjá LS Retail – framleiðanda hugbúnaðar fyrir verslunargeirann með starfsemi um allan heim. Fyrst kosinn í stjórn Arev verðbréfafyrirtækis í maí 2017.
gUNNAR ÁRMANNSSON – Meðstjórnandi. Frá því í desember 2012 hefur Gunnar verið innanhúss lögmaður VHE ehf., sem er um 500 manna fyrirtæki sem þjónustar álver um allan heim auk þess að vera umsvifamikið í verktakageiranum á Íslandi á sviði nýbygginga. Á árunum 2009-2012 var Gunnar framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækis á sviði heilbrigðistengdrar ferðaþjónustu PrimaCare ehf. Árin 2002 til 2009 var Gunnar framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands og árunum 1993 til 2002 gengdi Gunnar ýmsum stjórnunarstörfum hjá tollstjóranum í Reykjavík. Gunnar útskrifaðist með Cand. Jur. gráðu frá HÍ 1993 og MBA gráðu frá sama skóla 2002. Gunnar er formaður stjórnar Expeda ehf. sem er nýsköpunarfyrirtæki á sviði tölvugreindar og læknisfræði. Fyrst kosinn í stjórn Arev verðbréfafyrirtækis í maí 2017.
Varamenn í stjórn eru Magnús Gunnarsson og Davíð Gunnarsson.
Gunnar Ingimundarson er mágur framkvæmdastjóra Arev verðbréfafyrirtækis og Davíð Gunnarsson sonur hans og eru þeir því ekki samkvæmt leiðbeiningunum ekki óháðir stjórnendum félagsins samkvæmt leiðbeiningunum.
Árangursmat stjórnar Arev fer fram árlega. Mat er lagt á hvernig til tókst með verkefni og störf stjórnar á liðnu ári. Litið er til stefnumótunar, upplýsingagjafar og framtíðarsýnar, samsetningu og stærðar stjórnar, frammistöðu stjórnarmanna og frammistöðu framkvæmdastjóra. Þá skal þróun Arev yfirfarin og mat lagt á hvort hún sé í samræmi við markmið þess. Í kjölfar árlegs árangursmats skilgreinir stjórn verkefni á þeim svæðum sem úrbóta er þörf.
Framkvæmdastjóri er Jón Scheving Thorsteinsson, sem hefur gegnt því starfi frá júlí 2016, en hann stofnaði félagið Arev árið 1996 um ráðgjöf á sviði fyrirtækjarekstrar. Jón með meistaragráðu í aðgerðarrannsóknum frá Stanford University og lauk prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2012. Helstu skyldur framkvæmdastjóra eru að annast daglegan rekstur félagsins þar sem farið er að þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur lagt fyrir sbr. 1. mgr. 68 gr. laga um hlutafélög. Hann ber ábyrgð á upplýsingagjöf til innri og ytri eftirlitsaðila. Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald Arev sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna Arev sé með tryggum hætti. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir starfsmannahaldi. Hann ber ábyrgð á upplýsingagjöf til innri og ytri eftirlitsaðila. Honum ber að veita endurskoðendum félagsins allar upplýsingar sem þeir kunna að óska. Honum er enn fremur skylt að hlíta fyrirmælum stjórnar.
Félagið hefur ekki gerst brotlegt við nein lög né reglugerðir á síðast liðnu rekstrarári.
Formaður stjórnar stýrir samskiptum stjórnar við hluthafa. Stjórnarmönnum ber í störfum sínum og við ákvarðanatöku að starfa með hagsmuni félagsins og allra hluthafa að leiðarljósi samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og þeirra reglna og fyrirmæla sem um starfsemi fjármálafyrirtækja gilda. Stjórn tekur afstöðu til tillagna og spurninga hluthafa.
Á aðalfundi Arev er jafnframt haldin ýtarleg kynning á starfsemi félagsins undanfarið ár auk þess sem upplýsingar um rekstur Arev eru birtar í ársreikningi félagsins.
Stjórnháttayfirlýsing þessi er yfirfarin og samþykkt af stjórn Arev verðbréfafyrirtækis 20. mars 2025.