Aðgerðir gegn peningaþvætti

Reglur Arev verðbréfafyrirtækis hf. um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna.

Inngangur

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, auk laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna nr. 64/2019.

Almennt   

Markmið og gildissvið

Markmið reglna þessara er að leitast við að hindra að rekstur og starfsemi Arev verðbréfafyrirtækis hf. (hér eftir nefnt „Arev“) eða dótturfélaga þess verði notuð til að þvætta fjármuni eða til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna.

Með setningu reglna þessara vill Arev uppfylla í hvívetna ítrustu kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja á innlendum og alþjóðlegum vettvangi um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna.

Reglur þessar gilda fyrir Arev. Geri lög þess ríkis þar sem Arev gæti verið með starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins vægari kröfur en reglur þessar gera skal miða við að ákvæði reglna þessara gildi. Ef kröfurnar ganga lengra en reglur Arev skal Arev hlíða þeim í hvívetna.

Áhættumat

Þessum reglum ber að beita á grundvelli áhættumats þar sem umfang upplýsingaöflunar og annarra ráðstafana samkvæmt lögum þessum gagnvart hverjum viðskiptavini byggist á mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna hverju sinni.

Arev hefur sett sér áhættumatsreglur á grundvelli 4. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar sem fjármálafyrirtækjum er heimilt að ákveða umfang könnunar á áreiðanleika upplýsinga viðskiptavina út frá mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Reglur þessar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru settar í tengslum við reglur Arev um öflun gagna um viðskiptavini (KYC) og reglur fyrirtækisins um mat á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Skilgreiningar

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Peningaþvætti:

Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Einnig telst það peningaþvætti þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.

Fjármögnun hryðjuverka:

Öflun fjár, hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða hluta til  að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a – 100. gr. c  almennra hegningarlaga eins og það ákvæði er á hverjum tíma.

Ávinningur:

Hvers kyns hagnaður og eignir, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.

Raunverulegur eigandi:

Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi í hvers nafni viðskipti eða starfsemi er stunduð eða framkvæmd. Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:

a) einstaklingur eða einstaklingar, sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.

b) ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda skv. 1. tölul. t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara eð ef vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.

Í öðrum tilvikum en þeim sem að framan eru nefnd verður að meta hverju sinni hvenær aðili telst stjórna lögaðila eða öðrum einstaklingi þannig að hann teljist vera raunverulegur eigandi samanber b. lið 2. ml.gr. 13. tölulið 3 gr. laga nr. 140/2018.

Skelbanki:

Fjármálafyrirtæki eða sambærilegur aðili án raunverulegrar starfsemi eða heimilisfestu í því landi þar sem honum er veitt heimild til að starfa sem er jafnframt ótengdur eftirlitsskyldri samstæðu sem lýtur skilvirku eftirliti hjá viðeigandi eftirlitsaðila.

Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálatengsla:

Einstaklingar innlendir og erlendir, sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsaðilum.


Frysting efnahagslegs auðs:  Að koma í veg fyrir hvers konar nýtingu efnahagslegs auðs í því skyni að afla fjármuna, vöru eða þjónustu, þ.m.t. með sölu, leigu eða veðsetningu.
Frysting fjármuna: Að koma í veg fyrir hvers konar flutning, millifærslu, breytingu, notkun á, aðgang að eða viðskipti með fjármuni á einhvern hátt sem mundi leiða til breytinga á umfangi þeirra, fjárhæð, staðsetningu, eignarrétti, eignarhaldi, eðli, áfangastað eða annarra breytinga sem gera notkun fjármuna mögulega, þ.m.t. eignastýring.
Gereyðingarvopn: Kjarna-, efna-, sýkla- eða eiturvopn eða burðarkerfi fyrir slík vopn, sbr. lög um framkvæmd samnings um bann við framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra og lög um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.
Skráður aðili: Aðili sem hefur verið skráður á þvingunarlista í samræmi við 9.–11. gr.
Útbreiðsla og fjármögnun gereyðingarvopna: Þróun, framleiðsla, öflun, söfnun, notkun, útvegun, eignarhald, flutningur, miðlun, viðskipti með eða varsla á gereyðingarvopnum, sbr. 2. gr. reglugerðar um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi gereyðingarvopn, nr.123/2009.
Tilkynningarskyldur aðili: Aðili sem fellur undir 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

Um nafnlausa reikninga

Arev er óheimilt að stofna eða halda nafnlaus verðbréfasöfn eða aðra reikninga í þágu viðskiptavina sem ekki hefur verið staðreynt deili eins og kveðið er á um í reglum Arev um öflun gagna um viðskiptavini (KYC).

Viðskipti Arev fyrir hönd viðskiptavinar

Arev er heimilt að halda reikninga í eigin nafni fyrir viðskiptavini sína, hafi verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að staðreyna deili á viðkomandi viðskiptavini eins og kveðið er á um í reglum Arev um öflun gagna um viðskiptavini (KYC). Reynist ekki unnt að staðfesta eignarhald á slíkum reikningum með framangreindum hætti, skulu viðhafðar auknar varúðarráðstafanir vegna þess auk þess skal framkvæma sérstaka könnun hvort viðskiptamaður er á listum yfir þvingunaraðgerðir. 

Grein 4 í reglum þessum skal á engan hátt takmarka rétt fyrirtækisins til að gera framvirka samninga við þekkta viðskiptavini eða safna hlutabréfum fyrir þekkta viðskiptavini á safnreikning í nafni fyrirtækisins, eða annars sem er eðlilegur hluti af starfsemi hans.

Um viðskipti skelbanka

Arev er óheimilt að stofna til eða halda áfram viðskiptatengslum við skelbanka, eða hvert það fjármálafyrirtæki sem þekkt er af því að leyfa skelbanka að nota reikninga sína í því skyni að eiga eða geta átt viðskipti.

Um varðveislu upplýsinga

Arev skal:

I. Varðveita afrit af persónuskilríkjum og opinberum gögnum auk annarra upplýsinga um viðskiptavin í a.m.k. fimm ár frá því að viðskiptasambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað. Gögnin skulu vera á því formi að þau séu aðgengileg yfirvöldum sé þess óskað.

II. Gæta þess að varðveitt gögn séu nægjanleg til að yfirvöldum sé unnt að gera sér grein fyrir því hvernig einstök viðskipti voru framkvæmd og hafa skal í huga í því sambandi að hugsanlega gæti þurft að nota þau sem sönnunargögn í refsimáli.

Þau gögn sem þannig þarf að varðveita eru að lágmarki:

a) Nafn viðskiptavinar og heimilisfang, sem og nöfn þeirra prókúruhafa og umboðsmanna sem að viðskiptunum komu ef um lögaðila er að ræða.

b) Kennitala og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

c) Upplýsingar um tegund og eðli viðskiptanna.

d) Upplýsingar um fjárhæðir viðskiptanna og þá mynt sem viðskiptin fóru fram í.

e) Upplýsingar um það hvaða reikningar voru notaðir við viðskiptin.

f) Tímamark viðskipta.

g) Nafn móttakanda fjármuna ef það á við.

Um tilkynningarskyldu á grunsamlegri háttsemi viðskiptavina og ráðstafanir henni tengdar

Stöðvun viðskipta

Gruni Arev, eða hafi starfsmenn þess réttmæta ástæðu til að ætla, að fjármunir þeir sem ætlun viðskiptavinar stendur til að fari um hendur fyrirtækisins séu ágóði af ólögmætri háttsemi eða tengist fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna skal tryggt að:

  1. Hin umbeðnu viðskipti séu ekki framkvæmd, nema í þeim tilfellum þar sem viðskiptin eru þess eðlis að þau þola enga bið, fyrirtækinu er skylt að framkvæma viðskiptin eða stöðvun viðskipta kann að hindra eða torvelda rannsókn yfirvalda. Í slíku tilviki skal þess hins vegar vandlega gætt að öllum upplýsingum um þau sé haldið til haga og þau tafarlaust tilkynnt til yfirvalda í samræmi við ákvæði þessa kafla.
  2. Að teknu tilliti til niðurstöðu aðgerða sbr. lið 8.1.a skal ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþætti kanna hvort meint tilvik krefjist sérstakar skoðunar með hliðsjón af lögum nr. 64/2019 um frystingu fjármuna og skráningu á lista yfir þvingunaraðgerðir. Ábyrgðarmaður skal leggja mat og gripa til viðeigandi ráðstafan gefi tilefni til. Nánar kveðið á um í greinum 8.2, 8.3 og 8.4
  3. Viðskiptavini sé ekki neitað um framkvæmd viðskiptanna eða hann á annan hátt varaður við, sbr. grein 9.

 Um tilkynningu til ábyrgðamanns aðgerða gegn peningaþvætti

Öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sbr. grein 10 í reglum Arev um öflun upplýsinga um viðskiptavini (KYC), tilraunir til slíkra viðskipta eða grunsamleg háttsemi viðskiptavina, skulu tafarlaust tilkynnt ábyrgðarmanni aðgerða gegn peningaþvætti hjá Arev.

Sem dæmi um grunsamlega háttsemi viðskiptavina má nefna:

a) Þegar viðskiptavinur sannar ekki á sér deili með fullnægjandi hætti.

b) Þegar viðskiptavinur gefur ekki upplýsingar um tilgang fyrirhugaðra viðskipta.

c) Þegar viðskiptavinur gefur ótrúverðugar upplýsingar.

d) Ef ætla má að viðskipti fari fram í þágu þriðja manns og viðskiptavinur neitar að

      veita upplýsingar um þriðja mann.

e) Viðskipti sem ekki virðast hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang.

f)  Komi fram við könnun viðskiptamanna tengsl við aðila á alþjóðlegum listum um 

      þvingunarráðstafanir.

Tilkynning til ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti skal að lágmarki:

a) Vera skrifleg.

b) Innihalda upplýsingar um nafn viðskiptavinar og kennitölu.

c) Innihalda lýsingu á hinni grunsamlegu háttsemi og ástæður fyrir grunsemdum.

d) Innihalda nauðsynleg gögn er tengjast viðskiptunum.

Athugun ábyrgðamanns aðgerða gegn peningaþvætti á grunsamlegum og óvenjulegum viðskiptum

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti skal þegar í stað leggja mat á það, hvort ástæða sé til að tilkynna lögbærum yfirvöldum um hin grunsamlegu viðskipti eða viðskiptatilraun. Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti ber ábyrgð á því að allar kringumstæður slíkra viðskipta séu gaumgæfilega kannaðar og að niðurstöðum þeirrar könnunar sé komið til yfirvalda samhliða tilkynningu um viðskiptin. Sé hins vegar ekki talin ástæða til slíkrar tilkynningar skulu niðurstöður athugunar ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti varðveittar skv. ákvæðum greinar 7.

Athugun ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti á grunsamlegum eða óvenjulegum viðskiptum skal felast í eftirfarandi aðgerðum:

a)     Afla skal nauðsynlegra gagna til upplýsinga um viðskiptavin eða fyrirhuguð  viðskipti.

b)     Kannaður skal áreiðanleiki fyrirliggjandi gagna.

c)     Leggja skal sjálfstætt mat á fyrirliggjandi gögn og upplýsingar.

d) Skráðar skulu upplýsingar um tilkynningu til ábyrgðarmanns aðgerða gegn                                                                           peningaþvætti og þær aðgerðir sem gripið var til í framhaldi af henni í gagnavistunarkerfi fyrirtækisins.

Gögn sem ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti aflar í tengslum við sjálfstæða rannsókn sína á grunsamlegum viðskiptum skulu vera nægilega ítarleg til þess að unnt sé að átta sig á eðli viðskiptanna og til að nota megi sem sönnunargögn í refsimáli.

Verði niðurstaða könnunar jákvæð skal ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti tilkynna starfsmönnum um niðurstöðu sína jafnhliða lögbæru yfirvaldi.

Tilkynning til lögbærra yfirvalda

Telji ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti, að lokinni gaumgæfilegri rannsókn á kringumstæðum viðskipta eða grunsamlegri háttsemi viðskiptavinar, að rökstuddur grunur leiki á eða réttmæt ástæða sé til að ætla að slík viðskipti tengist broti af þeim toga sem skilgreint er í grein 2.3 skal hann þegar í stað tilkynna lögbæru stjórnvaldi þar um.

Slík tilkynning skal að lágmarki:

a)  Vera skrifleg.

b)  Innihalda upplýsingar um viðskiptavin, þ.m.t. afrit af persónuskilríki viðskiptavinar.

c)   Innihalda greinagóða lýsingu á hinni grunsamlegu háttsemi viðskiptavinar.

d)  Innihalda afrit allra þeirra skjala og upplýsinga sem tengjast mati ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti á því hvort viðskipti tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

e)  Tilgreina þann frest sem Arev hefur til að framkvæma viðskiptin.

f)   Innihalda önnur gögn sem nauðsynleg kunna að vera.

Tilkynning þessa efnis skal yfirleitt afhent áður en hin grunsamlegu viðskipti eru framkvæmd, en ella, í þeim tilfellum sem um ræðir í a-lið greinar 7.1, þegar að viðskiptunum loknum. Áréttað er að Arev ber að senda lögbæru stjórnvaldi tilkynningu skv. framangreindu þó ekki hafi komið til viðskipta og/eða engin færsla hafi átt sér stað, eða aðeins hafi verið um tilraun til viðskipta að ræða.

Að lokinni sendingu slíkrar tilkynningar skal ákvörðun um framkvæmd viðskipta viðskiptavinar tekin í samráði við það lögbæra stjórnvald sem hefur meðferð tilkynningarinnar með höndum. Skal þess ávallt gætt að  það lögbæra stjórnvald sem tekur við tilkynningunni staðfesti móttöku hennar.

Þagnarskylda

Stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu Arev er skylt að sjá til þess að viðskiptavinur eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að lögbæru stjórnvaldi hafi verið sendar upplýsingar eða að rannsókn vegna gruns um peningaþvætti kunni að verða hrundið af stað.

Jafnframt er sömu aðilum óheimilt að láta viðskiptavin vita eða á annan hátt gefa honum til kynna að viðskipti hans sæti athugun í tilefni tilkynningar frá öðrum aðila, fái þeir vitneskju um slíka athugun.

Um skyldur Arev gagnvart starfsmönnum í tengslum við skyldur skv. grein 8.1 í heild

Arev skal sjá til þess að upplýsingum um það hvaða starfsmaður það var sem tilkynnti um grunsamleg viðskipti viðskiptavinar sé haldið leyndum og skal nafni hans haldið leyndu m.a. í tilkynningum til ríkislögreglustjóra eða annarra lögbærra aðila, nema brýn nauðsyn krefji.

Ef svo ber undir skal fyrirtækið jafnframt gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda þá starfsmenn, sem að tilkynningu um viðskipti viðskiptavina koma, fyrir hótunum eða fjandsamlegum aðgerðum viðskiptavina í kjölfar slíkrar tilkynningar.

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti skal sjá til þess að þessara reglna sé gætt.

Um eftirlit með því að stefnu Arev í peningamálum sé fylgt.

Arev skal gæta þess að efni reglna þessara samræmist á hverjum tíma þeim alþjóðlegu reglum og viðmiðum sem í gildi eru og bestar leiðbeiningar veita um aðgerðir til að verjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Arev skal á hverjum tíma gæta þess að verkferlar og vinnureglur á einstökum sviðum fyrirtækisins endurspegli efni reglna þessara svo tryggt sé að þeim viðmiðum og meginreglum sem hér greinir sé framfylgt í hvívetna.

Um skyldur tengdrar tækniþróun

Arev skal leitast við að:

a) Greina á hverjum tíma hvaða áhrif ný tækni eða viðskiptaaðferðir geta haft á möguleika viðskiptavina til að stunda peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

b)  Gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík tækni eða viðskiptaaðferðir verði notuð í viðskiptum við Arev eða dótturfyrirtæki hans í því skyni að þvætta fjármuni eða fjármagna hryðjuverkastarfsemi.

c) Viðhafa sérstaka stefnu og verklag sem tekur á áhættuþáttum sem tengjast viðskiptum sem ekki fara fram augliti til auglitis.

Skal fyrirtækið leitast við að tryggja að skyldum samkvæmt þessari grein sé fullnægt, eftir atvikum í samráði og samstarfi við lögbær yfirvöld í hverju því ríki þar sem fyrirtækið eða dótturfyrirtæki hans hafa starfsemi.

Um ábyrgðarmann aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Yfirstjórn varna Arev gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er í höndum framkvæmdastjóra í umboði stjórnar Arev, en framkvæmd stefnu stjórnar sem og eftirlit með því að henni og ákvæðum laga er málaflokkinn varða sé framfylgt er í höndum sérstaks ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Skal ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti eiga beinan aðgang að stjórn og stjórnendum fyrirtækisins varðandi þau verkefni sem falla undir gildissvið reglna þessara. Þá skal ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptavina, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem skipt geta máli vegna tilkynningar til ríkislögreglustjóra.

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti skal á hverjum tíma afla sér upplýsinga um og nota tilmæli og leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins og annarra stjórnvalda og alþjóðlegra stofnanna. Hann skal jafnframt gera viðeigandi ráðstafanir til að viðhalda þekkingu sinni.

Í árlegri skýrslu ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti til stjórnar Arev skal gerð grein fyrir því hvernig skriflegar innri reglur og innra eftirlit fyrirtækisins samræmist leiðbeiningum, tilmælum og upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og öðrum stjórnvöldum og tilmælum FATF. Þá skal fjallað um það hvernig brugðist hafi verið við tilkynningum og upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og öðrum stjórnvöldum. Í skýrslunni skal gefa upp upplýsingar um fjölda tilkynninga til ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti og hve margar voru sendar til lögreglu. Þá skulu liggja fyrir upplýsingar um það hvernig þjálfun og fræðslu starfsmanna hefur verið hagað. Að lokum skal þess getið í skýrslu ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti hvað betur má fara í starfsaðferðum fyrirtækisins og ábendingar um úrbætur.

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti er Jón Sch. Thorsteinsson.

Þjálfun starfsmanna

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti skal tryggja að öllum starfsmönnum Arev séu kynntar reglur þessar og þær skyldur sem á þeim hvíla samkvæmt reglunum og sjá til þess að þeim standi til boða viðhlítandi þjálfun í þeim aðgerðum til varnar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem fyrirtækið viðhefur á hverjum tíma.

Jafnframt skal tryggt að slíkri þekkingu og þjálfun sé við haldið og skal hún miðast við þá tækni og aðferðir sem vitað er að notaðar eru við peningaþvætti á hverjum tíma.

Framkvæmdastjórar einstakra sviða fyrirtækisins skulu sjá til þess að starfsmenn sæki þær kynningar og námskeið um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem boðið er upp á í framangreindu skyni eftir því sem við á.

Þjálfun fyrir starfsmenn í framlínu sem eru í beinum samskiptum við viðskiptavini

Skipuleggja skal sérstaka þjálfun fyrir starfsmenn í framlínu að lágmarki einu sinni á ári. Á þeim kynningum skal farið yfir lög og reglur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hvaða gagna skuli aflað við upphaf viðskipta, áframhaldandi eftirlit með viðskiptum viðskiptavina, hvert beri að tilkynna grun um peningaþvætti, hvernig skuli staðið að samskiptum við viðskiptavini í tilefni slíkrar tilkynningar og hvaða skyldur hvíla á starfsmönnum skv. reglum þessum og peningaþvættislöggjöf. Þessir starfsmenn skulu hljóta sérstaka þjálfun er auðveldar þeim að staðreyna hvaða viðskipti gætu tengst peningaþvætti.

Þjálfun fyrir aðra starfsmenn

Aðrir starfsmenn Arev skulu reglulega sitja námskeið þar sem rifjaðar eru upp reglur fyrirtækisins í þessum efnum, sem og gildandi löggjöf um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þjálfun fyrir nýja starfsmenn

Við upphaf starfs skal afhenda nýjum starfsmanni reglur fyrirtækisins er lúta að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Kappkostað skal að nýir starfsmenn sæki fyrstu kynningu um peningaþvætti sem haldin er eftir að þeir hefja störf.

Um eftirlit með virkni varna gegn peningaþvætti

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti skal annast reglubundið eftirlit með virkni varna Arev gegn peningaþvætti og varna fyrirtækisins gegn fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna. Þeir verkferlar í fyrirtækinu sem tengjast vörnum fyrirtækisins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna ásamt úttektaráætlunum ábyrgðarmanns aðgerða gegn peningaþvætti og niðurstöður þeirra, skulu vera teknir út af innri endurskoðun fyrirtækisins með reglubundnum hætti.

Jafnframt framkvæmir innri endurskoðun sjálfstæðar úttektir á þessu sviði.

Um öryggi við ráðningu starfsmanna

Arev skal við ráðningu starfsmanna tryggja að þeir standist fyllstu hæfiskröfur. Verklag við ráðningu starfsmanna skal m.a. gera ráð fyrir heimildum til að kanna náms- og starfsferil umsækjanda, fjárhagsstöðu þeirra, sakarferil og aðra þætti sem til álita koma við mat á því hvort þeir séu í aðstöðu sem eykur hættuna á því að þeir verði handbendi aðila sem leggja stund á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna.

Afleiðingar þess að reglum þessum er ekki fylgt

Vanræki Arev í starfsemi sinni, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, sbr. reglur Arev um áreiðanleikakönnun viðskiptavina, tilkynningarskyldu, sbr. ákvæði reglna þessara eða aðrar skyldur skv. reglum þessum, eða sé vanrækt af hálfu Arev að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn svo sem kveðið er á um í reglum þessum og lögum, getur Arev sætt sektum.

Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður Arev gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera Arev sekt ef brotið var í þágu Arev.


Gildistaka

Reglur þessar öðlast gildi að fenginni undirritun stjórnar. Jafnframt falla úr gildi eldri reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti frá  2024.

Samþykkt af stjórn 20. mars 2025

Scroll to Top