Besta framkvæmd
Verklagsreglur Arev verðbréfafyrirtækis hf. um bestu framkvæmd við miðlun fyrirmæla
TILGANGUR
Verklagsreglur þessar eru settar í samræmi við lög 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, og reglugerð (ESB) 2017/565.
Arev verðbréfafyrirtæki hf. (hér eftir „félagið“ eða „Arev“) er ekki aðili að skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi með fjármálagerninga, á ekki eigin viðskipti né hefur heimild til verðbréfamiðlunar, nema í tengslum við eignastýringu. Þá hefur félagið ekki heimild til að framkvæma fyrirmæli um viðskipti fyrir hönd viðskiptavina og því eru öll viðskipti viðskiptavinar Arev framkvæmd af þriðja aðila, þ.e. fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til að framkvæma fyrirmæli um verðbréfaviðskipti (hér eftir einnig „þriðji aðili“).
Með bestu framkvæmd við miðlun fyrirmæla um verðbréfaviðskipti er átt við þá skyldu sem hvílir á félaginu til þess að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína, sbr. 64.gr reglugerðar (ESB) 2017/565. Félagið mun leita allra skynsamlegra leiða í samræmi við lög, reglur og þessar verklagsreglur til að tryggja viðskiptavinum sínum bestu mögulegu niðurstöðu við miðlun fyrirmæla þeirra um verðbréfaviðskipti.
GILDISSVIÐ
Verklagsreglurnar eiga við um framkvæmd við miðlun fyrirmæla eignastýringar Arev um verðbréfaviðskipti fyrir hönd viðskiptavina félagsins, hvort sem er fyrir almenna fjárfesta eða fagfjárfesta.
Verklagsreglurnar gilda um framkvæmd eignastýringar við miðlun fyrirmæla þegar eignastýring Arev beinir fyrirmælum um viðskipti á grundvelli samnings um eignastýringu til þriðja aðila.
Verklagsreglurnar gilda um viðskipti með allar tegundir fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfssemi eins og það hugtak er skilgreint 4. gr. laga 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Í reglum þessum er því lýst hvernig eignastýring Arev mun almennt miðla fyrirmælum viðskiptavina sinna, sem gert hafa samning við félagið um eignastýringu, til þriðju aðila þegar viðskiptavinir óska ekki eftir sérstakri framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
Verklagsreglunum er ætlað að ná til miðlunar fyrirmæla eignastýringar um verðbréfaviðskipti fyrir bæði almenna fjárfesta og fagfjárfesta, allar tegundir fjármálagerninga, mismunandi markaði og mismunandi fyrirmæli. Í verklagsreglunum er því ekki tæmandi talning á öllum þeim þáttum sem eignastýring Arev lítur til við miðlun fyrirmæla um verðbréfaviðskipti til þriðja aðila vegna eignastýringar eða hvernig eignastýring Arev metur hvert tilvik fyrir sig, heldur marka reglunar ákveðinn ramma svo viðskiptavinir eignastýringar félagsins öðlist yfirsýn yfir það hvernig eignastýring félagsins tryggir bestu framkvæmd á miðlun fyrirmæla um verðbréfaviðskipti.
Með „miðlun fyrirmæla“ er átt við það hvernig félagið miðlar fyrirmælum um verðbréfaviðskipti viðskiptavinar, sem gert hefur samning um eignastýringu við félagið, til þriðja aðila.
UM BESTU FRAMKVÆMD VIÐ MIÐLUN FYRIRMÆLA
(1) Þættir sem litið er til og vægi þeirra:
Við framkvæmd eignastýringar mun eignastýring félagsins leita allra eðlilegra leiða til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini eignastýringar þegar það beinir fyrirmælum um verðbréfaviðskipti á grundvelli samnings um eignastýringu til þriðja aðila.
Það verður gert með því að framfylgja verklagsreglum þessum og ferlum á þeim byggðum sem eru hannaðir til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini eignastýringar félagsins að teknu tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda til þess að af viðskiptunum verði, umfangs og eðlis viðskipta og annarra þátta sem máli skipta.
Þrátt fyrir að verð í viðskiptum hafi að öllu jöfnu mest vægi við að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu er þó mögulegt að eignastýring félagsins meti aðstæður svo að aðrir þættir en verð séu mikilvægari í tilteknum tilvikum. Hlutfallslegt mikilvægi hvers þáttar er breytilegt og ræðst m.a. af eftirfarandi viðmiðum:
- Sérkennum viðskiptavinar, þ.m.t. hvort hann telst almennur fjárfestir eða fagfjárfestir.
- Tegund fjármálagerninga sem fyrirmælin varða.
- Eðli fyrirmæla viðskiptavinar.
- Sérkennum þeirra markaða þar sem framkvæma má viðskiptafyrirmælin.
Í viðauka I er að finna yfirlit um aðferðir sem félagið beitir til að ákvarða hlutfallslegt mikilvægi framangreindra þátta.
(2) Framkvæmd miðlunar á fyrirmælum
Hafi viðskiptavinur eignastýringar ekki beint sérstökum fyrirmælum til félagsins um framkvæmd viðskipta, verða fyrirmæli um verðbréfaviðskipti framkvæmd með því að vísa beiðnum um viðskipti við þriðja aðila sem félagið hefur gert samning við um að framkvæma fyrirmæli um verðbréfaviðskipti fyrir sína hönd viðskiptavina eignastýringar á markaði. Félagið mun eingöngu gera samninga við viðurkennd fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til að framkvæma fyrirmæli um verðbréfaviðskipti á verðbréfamörkuðum eða markaðstorgi fyrir fjármálagerninga sem vinna samkvæmt viðurkenndum reglum.
(3) Besta niðurstaða miðað við aðstæður
Þrátt fyrir að leitað verði allra eðlilegra leiða til þess að ná sem bestri niðurstöðu fyrir viðskiptavini eignastýringar, miðað við þau úrræði sem til staðar eru og þær aðstæður sem starfað er við, getur félagið ekki ábyrgst að í sérhverju tilviki verði alltaf um að ræða bestu niðurstöðu. Fari starfsfólk eignastýringar félagsins eftir reglum þessum í einu og öllu verður almennt litið svo á að félagið hafi fullnægt skyldu sinni um að tryggja viðskiptavinum eignastýringar bestu framkvæmd við miðlun fyrirmæla um verðbréfaviðskipti í samræmi við 64-66. gr. reglugerðar (ESB) 2017/565.
(4) Viðskiptavinur mælir fyrir um ákveðna framkvæmd fyrirmæla
Þegar viðskiptavinur mælir fyrir um sérstök fyrirmæli við miðlun fyrirmæla um verðbréfaviðskipti til þriðja aðila munu þau verða framkvæmd í samræmi við fyrirmæli viðskiptavinarins. Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir því að þegar hann gefur sérstök fyrirmæli er félagið ekki skuldbundið til að gæta að öllum þeim þáttum sem taldir eru í verklagsreglum þessum til að ná bestu mögulegu niðurstöðu, að því er varðar þann hluta eða þann þátt fyrirmælanna sem hin sérstöku fyrirmæli viðskiptavinarins lúta að, en félagið hefur þó alltaf að leiðarljósi að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna.
MARKAÐIR
(1) Framkvæmd miðlunar vegna fyrirmæla um verðbréfaviðskipti á verðbréfamörkuðum
Framkvæmd eignastýringar felur í sér að fyrirmælum um verðbréfaviðskipti viðskiptavina eignastýringar á skipulögðum verðbréfamörkuðum er miðlað til þriðja aðila.
Ef fyrirmæli um verðbréfaviðskipti viðskiptavina eignastýringar fela í sér beiðni um kaup eða sölu á verðbréfum sem eru tekin til viðskipti á skipulögðum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga leggur eignastýring áherslu á að viðskiptin með viðkomandi bréf séu framkvæmd á viðkomandi markaði. Félagið leggur áherslu á þessa leið sem meginreglu þar sem verðlagning á skipulögðum verðbréfamarkaði eða á markaðstorgi fjármálagerninga er gagnsæ, hraðinn við afgreiðslu viðskipta mikill, auðvelt að átta sig á kostnaði við að afla viðskiptanna og líkurnar á því að viðskiptin komist á eru almennt miklar.
Félagið er hins vegar sjálft ekki aðili að skipulögðum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga og hefur ekki starfsleyfi til að framkvæma viðskiptafyrirmæli og því er endanleg ákvörðun ávallt í höndum þriðja aðila (fjármálafyrirtækis með starfsleyfi til að framkvæma fyrirmæli um verðbréfaviðskipti).
Félagið kappkostar að velja þriðja aðila á þann hátt að hagsmuna viðskiptavina verði gætt og hefur Arev gert samning við Íslandsbanka um viðskipti með fjármálagerninga fyrir sína hönd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.
(2) Framkvæmd fyrirmæla um verðbréfaviðskipti utan markaða
Þrátt fyrir að Arev leggi áherslu á að fyrirmæli um verðbréfaviðskipti séu almennt framkvæmd af þriðja aðila á skipulegum mörkuðum kann þriðji aðili að meta aðstæður þannig að betri niðurstaða fáist fyrir viðskiptavin eignastýringar við framkvæmd fyrirmæla utan skipulagðra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga. Þar sem öll framkvæmd og/eða ákvörðun um framkvæmd á fyrirmælum viðskipta utan skipulagðra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga fer fram hjá þriðja aðila metur hann heildstætt hvort hagkvæmara sé að framkvæma fyrirmæli utan slíkra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga eða á þeim.
Samþykki viðskiptavinar sem fylgir þessum verklagsreglum gerir ráð fyrir að viðskiptavinur veiti almennt samþykki fyrir því að fyrirmæli eignastýringar um verðbréfaviðskipti í samræmi við verklagsreglur þessar séu framkvæmdar af hálfu þriðja aðila utan skipulegra verðbréfamarkaða og markaðstorgs fjármálagerninga.
TRUFLUN Á MARKAÐI
Verði truflun á markaði, eða starfsemi félagsins vegna atvika eins og t.d. rafmagnstruflana og bilana í tölvukerfi getur félaginu verið ómögulegt að miðla viðskiptafyrirmælum í samræmi við reglur þessar. Félagið mun í slíkum tilvikum, eftir bestu getu, leita allra eðlilegra leiða til að ná bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína, auk þess að upplýsa viðskiptavini um slík vandkvæði án tafar og um leið og þau koma í ljós.
MEGINREGLUR UM FRAMKVÆMD MIÐLUN FYRIRMÆLA
Fyrirmæli viðskiptavina er miðlað án tafar og í þeirri röð sem þau berast, nema aðstæður séu því til fyrirstöðu eða ef talið er að hagstæðara sé fyrir viðskiptavin að fyrirmælum sé miðlað til þriðja aðila á annan hátt.
Arev mun ekki heimila þriðja aðila að safna saman pöntunum frá félaginu. Viðskiptavini Arev er þó ljóst að þriðji aðili kann að safna saman pöntunum annarra viðskiptavina fjármálafyrirtækisins og/eða pöntunum fyrir eigin reikning fjármálafyrirtækisins við fyrirmæli viðskiptavinar um verðbréfaviðskipti sem eignastýring Arev hefur miðlað, enda sé það mat þriðja aðila að það leiði til bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavin eignastýringar Arev.
EFTIRLIT OG ENDURSKOÐUN REGLNANNA
Framkvæmdastjóri félagsins ber ábyrgð á að eftirlit sé fyrir hendi með framkvæmd verklagsreglna þessara og gætir þess að starfsmenn fylgi reglunum í einu og öllu.
Verklagsreglurnar skal endurskoða reglulega, a.m.k. einu sinni á ári, og skal félagið greina hvort þær séu nægilega skilvirkar í framkvæmd. Félaginu er skylt að meta það reglulega hvort aðgerðir samkvæmt reglum þessum, þ.m.t. val á þriðju aðilum til að miðla fyrirmælum um verðbréfaviðskipti og þeir markaðir sem reglurnar gera ráð fyrir að verði nýttir til að miðla fyrirmælum leiði til bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini.
Félagið mun afla upplýsinga frá samstarfsaðilum sínum, sem framkvæma fyrirmæli að beiðni þess, í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að framkvæmd fyrirmæla eignastýringar vegna viðskiptavina félagsins sé í samræmi við verklagsreglur um bestu framkvæmd við miðlun fyrirmæla.
UPPLÝSINGASKYLDA
Félagið skal að beiðni viðskiptavinar geta sýnt fram á að fyrirmæli eignastýringar um verðbréfaviðskipti hans hafi verið framkvæmd í samræmi við verklagsreglur um bestu framkvæmd fyrirmæla. Til þess að geta fullnægt þeirri skyldu sinni mun félagið skrá niður og/eða geyma á tölvutæku formi allar upplýsingar um viðskiptavini og fyrirmæli félagsins um viðskipti þeirra og framkvæmd fyrirmælanna hjá þriðja aðila.
Verklagsreglur þessar eru aðgengilegar viðskiptavinum á heimasíðu félagsins: www.arev.is, nánar tiltekið www.arev.is/upplýsingar.
Verklagsreglur þessar skulu endurskoðaðar árlega sem og í hvert skipti sem veruleg breyting verður sem hefur áhrif á getu Arev til að ná besta hugsanlega árangri við framkvæmd fyrirmæla viðskiptavina með samræmdum hætti. Komi til breytinga á verklagsreglunum mun félagið upplýsa viðskiptavini sína um það. Með því að birta breyttar verklagsreglur um bestu framkvæmd á heimasíðu félagsins telst það hafa uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart viðskiptavinum sínum samkvæmt þessu ákvæði.
GILDISTAKA
Þannig samþykkt af stjórn Arev verðbréfafyrirtækis hf. þann 20. mars 2025.