Eigin viðskipti
Reglur Arev verðbréfafyrirtækis hf. um eigin viðskipti starfsmanna o.fl.
TILGANGUR
Reglur þessar eru settar í samræmi við 21. gr. laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga, varðandi viðskipti starfsmanna við Arev verðbréfafyrirtæki hf. (nefnt félagið eða Arev eftirleiðis í reglum þessum).
Reglurnar eru hluti af ráðstöfunum Arev sem ætlað er að sporna gegn hagsmunaárekstrum á milli félagsins og viðskiptavina þess eða viðskiptavina félagsins innbyrðis. Með framkvæmd reglnanna varðveitir félagið trúverðugleika sinn og stuðlar að óhlutdrægni í starfsemi sinni.
Með reglum þessum er stefnt að því að koma í veg fyrir að viðskipti eigenda virkra eignarhluta, stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila rekist á við hagsmuni viðskiptamanna. Starfsmenn og stjórnendur félagsins skulu ávallt gæta hagsmuna viðskiptavina félagsins og hafa þá grundvallarreglu í huga að hagsmunir viðskiptavina eru um leið hagsmunir félagsins sjálfs.
Reglunum er einnig ætlað að koma í veg fyrir að starfsmenn sem hafa aðgang að innherja- eða trúnaðarupplýsingum misnoti slíkar upplýsingar eða taki þátt í viðskiptum sem kunna að vera fallin til þess að valda tortryggni. Starfsmenn og stjórnendur verða að hafa í huga að félaginu er heimilt að krefjast þess að viðskipti starfsmanna eða stjórnenda, sem að áliti félagsins eru tortryggileg, gangi til baka.
Reglur þessar skulu vera aðgengilegar viðskiptavinum félagsins.
GILDISSVIÐ
(1) Reglur þessar taka að öllu leyti til eftirfarandi aðila:
a) starfsmanna félagsins,
b) aðila sem tengdir eru starfsmönnum félagsins fjölskylduböndum,
c) eignarhaldsfélaga framangreindra aðila, sem og félaga þar sem þessir aðilar geta með beinum eða óbeinum hætti, í skjóli eignarhalds og/eða stjórnarsetu, tekið ákvörðun um viðskipti sem falla undir reglur þessar. Þær reglur sem settar eru um viðskipti starfsmanna í reglum þessum skulu einnig gilda um þessi félög, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
(2) Reglur þessar gilda að því leyti sem sérstaklega er tiltekið hverju sinni um eftirfarandi aðila:
a) stjórnarmenn,
b) eiganda.
(3) Aðilar samkvæmt lið (1) a) og lið (2) a) og b) skulu undirrita yfirlýsingu, þar sem fram kemur að þeir hafi kynnt sér og eftir atvikum viðkomandi tengdum aðilum, sem tilgreindir eru í lið (1) b) og c), efni reglna þessara og skuldbindi sig til að lúta þeim.
(4) Starfi maki starfsmanns hjá öðru fjármálafyrirtæki sem hefur verklegsreglur um viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga þá skal tilkynna það regluverði. Viðskipti makans með fjármálagerninga skulu þá að jafnaði fara í gegnum það fyrirtæki, en reglur þessar gilda þó að öðru leyti eftir því sem við á, þ.m.t. að viðskipti skulu tilkynnt til regluvarðar.
(5) Reglurnar gilda um öll eigin viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga, nema þau sem hér eru talin:
a) eigin viðskipti sem framkvæmd eru í eignastýringu þar sem eignasafnsstjóri hefur fullt ákvörðunarvald um viðskiptin og engin samskipti hafa farið fram af hálfu starfsmannsins við eignasafnsstjórann í tengslum við viðskiptin,
b) eigin viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum sem uppfylla skilyrði laga nr. 16/2021, um verðbréfasjóði, að því tilskildu að hlutaðeigandi einstaklingur taki ekki þátt í stjórnun viðkomandi sjóðs.
(6) Reglurnar gilda einnig um eigin viðskipti starfsmanna með gjaldeyri, ef viðkomandi starfsmenn hafa með höndum gjaldeyrisviðskipti í störfum sínum fyrir fyrirtækið eða hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum um slík viðskipti. Þegar fjallað er um fjármálagerninga í reglum þessum skal hugtakið einnig ná yfir gjaldeyrisviðskipti framangreindra starfsmanna.
(7) Í reglunum er ekki að finna tæmandi umfjöllun um það efni sem þær taka á. Að öðru leyti gildir eftir því sem við á reglugerðum varðandi fjárfestavernd og um verðbréfaviðskipti eins og þau eru á hverjum tíma.
ORÐSKÝRINGAR
Í reglum þessum merkir:
(1) Starfsmaður félagsins:
a) stjórnarmaður, stjórnandi, meðeigandi eða samsvarandi aðili,
b) starfsmaður félagsins eða hver sá einstaklingur sem starfar undir stjórn félagsins eða á vegum þess og á þátt í að veita þjónustu félagsins á sviði verðbréfaviðskipta,
(2) Aðili sem tengdur er starfsmanni félagsins fjölskylduböndum:
a) maki, maki í staðfestri samvist eða sambúðarmaki starfsmanns félagsins,
b) barn, kjörbarn eða stjúpbarn starfsmanns félagsins sem er á hans framfæri,
c) önnur skyldmenni starfsmanns félagsins sem hafa búið á sama heimili og hann í að minnsta kosti eitt ár miðað við þann dag sem tiltekin viðskipti fara fram.
(3) Eigin viðskipti: Viðskipti með fjármálagerning sem eru framkvæmd af eða fyrir hönd starfsmanns félagsins þegar að minnsta kosti eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
a) viðskiptin eiga sér stað utan verksviðs hlutaðeigandi starfsmanns félagsins;
b) viðskiptin eru innt af hendi fyrir reikning einhvers af eftirfarandi aðilum:
i. starfsmanni félagsins;
ii. aðila sem tengdur er starfsmanni félagsins fjölskylduböndum eða aðila sem tengist náið starfsmanni félagsins;
iii. aðila sem er í slíkum tengslum við starfsmann félagsins að sá síðarnefndi hefur beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu viðskiptanna, að undanskilinni þóknun eða umboðslaunum fyrir framkvæmd viðskiptanna.
Að öðru leyti vísast um merkingu hugtaka í reglum þessum til laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
EIGIN VIÐSKIPTI FÉLAGSINS
(1) Félagið skal ekki stunda eigin viðskipti.
(2) Við ráðgjöf um viðskipti með fjármálagerninga skal gera viðskiptavini grein fyrir því ef félagið hefur sérstakra hagsmuna að gæta, enda séu upplýsingar um það aðgengilegar starfsmanninum. Ekki er þó nauðsynlegt að gera viðskiptavini grein fyrir slíkum hagsmunum ef þeir hafa óverulega fjárhagslega þýðingu fyrir félagið.
VIÐSKIPTI STARFSMANNA OG AÐILA SEM TENGDIR ERU STARFSMÖNNUM
(1) Trúverðugleiki viðskipta. Starfsmenn félagsins skulu ávallt sýna fyllstu aðgætni í viðskiptum með fjármálagerninga fyrir eigin reikning. Eigin viðskipti starfsmanna mega á engan hátt brjóta í bága við hagsmuni viðskiptamanna og skulu starfsmenn forðast að haga viðskiptum á þann hátt að þau stofni trúverðugleika fyrirtækisins í hættu. Starfsmönnum er óheimilt að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með verðbréf í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með tiltekin verðbréf eða hafa óeðlileg eða óhæfileg áhrif á verðmyndun í verðbréfaviðskiptum. Jafnframt er þeim óheimilt að eiga viðskipti fyrir eigin reikning með því að nýta sér í eigin þágu viðskiptakjör sem félagið kann að njóta hjá þriðja aðila.
(2) Milliganga félagsins. Viðskipti starfsmanna skulu fara fram fyrir milligöngu félagsins, sé það hluti af starfsemi félagsins að framkvæma slík viðskipti. Bjóði félagið ekki upp á þá þjónustu sem starfsmaður óskar eftir, skal engu að síður fylgt ferli viðskipta eins og hér er lýst, eftir því sem við á.
(3) Samþykki regluvarðar. Starfsmenn félagsins skulu tilkynna regluverði skriflega um fyrirhuguð viðskipti sín með fjármálagerninga og skal regluvörður taka afstöðu til viðskiptanna áður en þau eiga sér stað. Fari viðskipti ekki fram sama dag skal starfsmaður ráðfæra sig að nýju við regluvörð. Regluvörður getur falið öðrum starfsmanni félagsins að móttaka og afgreiða beiðnir starfsmanna um fyrirhuguð viðskipti fyrir sína hönd og á sína ábyrgð.
Viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga skulu á engan hátt hafa forgang umfram önnur viðskipti heldur fara í röð á eftir beiðnum sem á undan hafa borist, þó svo að leyfi regluvarðar til viðskipta liggi fyrir.
Regluvörður hefur heimild til að láta bakfæra viðskipti starfsmanna telji regluvörður að viðskiptin hafi ekki átt að eiga sér stað.
Þrátt fyrir að regluvörður skuli taka afstöðu til viðskipta áður en þau eiga sér stað eru viðskipti starfsmanns þó alfarið á ábyrgð viðkomandi starfsmanns.
(4) Skráning viðskipta. Viðskipti starfsmanna félagsins skulu skráð sérstaklega af regluverði, hvort sem viðskiptin fara fram fyrir milligöngu félagsins eða ekki.
(5) Lágmarkseignarhaldstími. Starfsmenn skulu eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í 3 mánuði að lágmarki. Starfsmenn geta þó selt fjármálagerninga fyrir það tímamark ef markaðsverð þeirra fer niður fyrir upphaflegt kaupverð. Þessi lágmarkseignarhaldstími gildir ekki um fjármálagerninga (þar með talið afleiður) sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi með fjármálagerninga (MTF) erlendis, og hafa mikla veltu á mælikvarða þess markaðar. Með veltumiklum verðbréfum er t.d. átt við verðbréf sem mynda helstu vísitölur verðbréfa, s.s. S&P500 eða FTSE100.
Lágmarkseignarhaldstími 1. mgr. á ekki við um skuldabréf sem starfsmenn fá sem greiðslu við sölu fjármuna sinna og fjármálagerninga sem starfsmenn hafa eignast áður en reglurnar tóku gildi gagnvart þeim.
Regluverði er heimilt að veita frekari undanþágur frá lágmarkseignarhaldstíma vegna sérstakra aðstæðna, t.d. vegna breytinga á aðstæðum starfsmanns eftir að verðbréfin voru keypt, s.s. veikinda, slyss eða andláts í fjölskyldu hans eða hjónaskilnaðar hans, eða ef hann hefur eignast þau óvænt með öðrum hætti en kaupum, s.s. að arfi eða gjöf.
(6) Þátttaka í útboðum. Starfsmönnum er óheimilt að taka þátt í útboðum á fjármálagerningum sem félagið gefur út eða útboðum sem félagið annast fyrir aðra útgefendur nema því aðeins að í útboðunum sé óskað eftir tilboðum um hlut á föstu gengi en ekki tilboðum um verð einstakra bréfa, gengi eða vaxtakjör og að þeir gangi ekki fyrir sem fyrstir skrá sig. Í slíkum útboðum verða tilboð starfsmanna að berast við upphaf fyrsta útboðsdags. Regluverði skal þó vera heimilt að takmarka þátttöku starfsmanna í slíkum útboðum enn frekar og jafnvel banna hana alfarið. Í útboðslýsingu skal greina hvort starfsmönnum sé heimilt að taka þátt í útboðum og eftir hvaða skilmálum.
(7) Ráðgjöf og greining. Starfsmönnum sem í störfum sínum eru faglegir ráðgjafar eða trúnaðarmenn útgefanda fjármálagerninga, eða starfa á starfssviðum sem annast slíka ráðgjöf, er óheimilt að eiga viðskipti með fjármálagerninga viðkomandi útgefanda frá því að störfin hefjast og næstu þrjá mánuði eftir að störfum þeirra fyrir viðkomandi lýkur, nema þeirra vinnu ljúki með opinberri útgáfu á upplýsingum, svo sem útboðs- eða skráningarlýsingu eða tilkynningu til Kauphallar Íslands hf. Slíkir ráðgjafar teljast innherjar viðkomandi útgefanda fjármálagerninga hafi þeir tímabundið eða að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum og lúta þeim reglum sem gilda um þá.
Starfsmönnum er óheimilt að nýta sér innri greiningu félagsins til að hagnast persónulega í viðskiptum ef niðurstöður greiningar eru ekki aðgengilegar viðskiptamönnum. Niðurstöður greininga teljast aðgengilegar viðskiptamönnum þegar þær hafa birst á heimasíðu félagsins, verið sendar út með rafrænum hætti til þeirra sem þess hafa óskað eða verið gefnar út og liggja frammi á starfsstöð.
(8) Sérkjör starfsmanna. Starfsmenn félagsins njóta ekki sérkjara hjá félaginu í viðskiptum með fjármálagerninga.
(9) Fjárfestingafélög. Starfsmönnum er óheimilt að taka þátt í fjárfestingarhópum eða öðrum hliðstæðum félagsskap sem hefur þann tilgang að þátttakendur standi sameiginlega að kaupum á fjármálagerningum. Ákvæði þetta tekur þó ekki til eignarhaldsfélaga skv. 2. gr. reglna þessara, en við stofnun slíkra félaga eða kaup á hlutum í slíkum félögum skal þó fylgja almennum reglum um viðskipti starfsmanna, þar á meðal reglum um viðskipti með fjármálagerninga sem ekki hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði eða markaðstorgi með fjármálagerninga.
(10) Upplýsingagjöf um verðbréfaeign og fjárhagslega stöðu. Starfsmenn skulu greina regluverði frá allri verðbréfaeign sinni þegar þeir hefja störf hjá félaginu. Jafnframt skal regluvörður fá upplýsingar um verðbréfaeign þegar reglur þessar taka gildi. Starfsmenn skulu einnig greina frá því hver viðskiptabanki þeirra er og greina frá stórum skuldbindingum sínum. Starfsmönnum ber að tilkynna regluverði um fjárhagsörðugleika sína ef þeir koma upp. Vísbendingar um fjárhagsörðugleika eru m.a. þegar geta til að greiða útistandandi reikninga er verulega skert og/eða alvarlegar innheimtuaðgerðir hafa hafist gagnvart viðkomandi.
VIÐSKIPTI STJÓRNARMANNA OG AÐILA SEM EIGA VIRKAN EIGNARHLUT
Stjórnarmenn (aðalmenn og varamenn í stjórn) og aðilar sem eiga virkan eignarhlut í félaginu skulu haga viðskiptum með þeim hætti að þau veki ekki tortryggni, eða séu til þess fallin að kasta rýrð á trúverðugleika og orðstír þeirra eða félagsins. Óskir þessara aðila um að félagið annist kaup eða sölu verðbréfa fyrir þá skulu afgreiddar með sama hætti og óskir annarra viðskiptamanna og njóta ekki forgangs á nokkurn hátt. Viðskiptin skulu skráð sérstaklega og eftirlit haft með þeim með sama hætti og viðskiptum starfsmanna. Sama gildir um endurskoðendur félagsins og, eftir atvikum, fasta ráðgjafa. Sömu reglur gilda eftir því sem við á um aðila tengda stjórnarmönnum og eigendum virks eignarhlutar.
Annist félagið viðskipti með fjármálagerninga fyrir stjórnarmenn eða eigendur virks eignarhlutar og maka þeirra skulu viðskiptin lúta eftirliti stjórnar félagsins sem skal fá kerfisbundnar upplýsingar um þau.
REGLUVÖRÐUR – EFTIRLIT MEÐ FRAMKVÆMD REGLNANNA
- Staða og hlutverk.
Sérstakur regluvörður skal tilnefndur innan félagsins til að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglnanna sé fylgt, hafa forgöngu um túlkun á reglunum og taka ákvarðanir í samræmi við reglurnar. Jafnframt skal regluvörður sinna kynningu og endurmenntun innanhúss vegna reglnanna. Regluvörður skal vera sjálfstæður í störfum sínum og ráðning hans eða skipan í starf regluvarðar skal staðfest af stjórn félagsins. Verðbréfaviðskipti regluvarðar skulu lúta eftirliti framkvæmdastjóra félagsins. Gegni framkvæmdastjóri jafnframt stöðu regluvarðar skal stjórnarformaður sinna hlutverki regluvarðar gagnvart framkvæmdastjóra. Sömu reglur gilda í hvívetna um slík viðskipti og endranær um viðskipti starfsmanna og framkvæmd þeirra.
- Verksvið.
Regluvörður skal hafa aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta í starfi hans og er öllum starfsmönnum félagsins skylt að veita honum allar þær upplýsingar er hann óskar eftir svo fljótt sem kostur er. Sú skylda hvílir á starfsmönnum sem verða þess áskynja að reglur séu brotnar, að greina regluverði frá því þegar í stað.
Tilkynningaskylda. Regluvörður skal tilkynna brot til stjórnar eða framkvæmdastjóra eftir atvikum. Stjórn skal senda upplýsingar um brot til Fjármálaeftirlitsins.
Regluvörður skal taka afstöðu til viðskipta starfsmanna áður en þau eiga sér stað og ganga úr skugga um að öll skilyrði reglnanna séu uppfyllt. Ef um viðskipti hefur verið að ræða skal gera mánaðarleg viðskiptayfirlit sem skulu innhalda upplýsingar um kaup og sölu verðbréfa, s.s. kaupverð eða söluverð, hvenær viðskiptin fóru fram, hver annaðist viðskiptin og hver sé gagnaðilinn í viðskiptunum.
Regluvörður skal í eftirliti sínu með viðskiptum starfsmanna gæta sérstaklega að viðskiptum með fjármálagerninga þar sem félagið sjálft eða aðilar því tengdir eiga hagsmuna að gæta.
Regluvörður getur bannað viðskipti starfsmanna með ákveðna fjármálagerninga, án skýringa eða tímamarka. Þá er regluverði heimilt að banna tímabundið viðskipti sem tengjast innri greiningu fyrirtækis sem ekki er aðgengileg öðrum viðskiptamönnum.
Regluvörður skal halda nákvæma skrá um störf sín. Þar skulu bæði skráðar allar veittar heimildir sem og synjanir um viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga.
Regluvörður veitir undanþágur sem heimilt er að veita samkvæmt reglunum og heldur skrá yfir þær.
Regluvörður skal halda skrá yfir kvartanir frá viðskiptamönnum sem varða meint brot á reglunum og beina þeim í réttan farveg.
VIÐSKIPTI STARFSMANNA VIÐ AREV
Viðskipti starfsmanna við Arev, þ.á m. lykilstarfsmanna, skulu lúta sömu reglum og
viðskipti við almenna viðskiptamenn Arev í sambærilegum viðskiptum. Regluvörður skal jafnframt hafa eftirlit með slíkum viðskiptum og er honum heimilt að vísa slíkum viðskiptaerindum til stjórnar Arev ef hann telur ástæðu til.
VIÐURLÖG O.FL.
Brot á reglum þessum geta varðað stjórnvaldssekt eða refsingu eftir því sem segir í lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga. Þá geta brot á reglunum varðað áminningu eða brottrekstri. Viðskipti sem brjóta gegn reglum þessum skulu ganga til baka ef unnt er.
GILDISTAKA
Reglur þessar öðlast gildi að fengnu samþykki stjórnar félagsins. Um leið falla úr gildi eldri reglur félagsins um sama efni frá árinu 2024.
Samþykkt af stjórn Arev verðbréfafyrirtækis hf. hinn 20. mars 2025.