Flokkun viðskiptavina
Reglur Arev verðbréfafyrirtækis hf. um flokkun viðskiptavina
ALMENNT
Reglur þessar eru settar í samræmi við 51. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga. Þar kemur fram að verðbréfafyrirtæki skuli setja sér verklagsreglur um flokkun viðskiptavina. Viðskiptavinir geta fallið í þrjá mismunandi flokka; almennur fjárfestir, fagfjárfestir og viðurkenndur gagnaðili.
Flokkun viðskiptavina er mikilvæg af þeim sökum að sú vernd sem skylt er að veita viðskiptavinum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti er mismunandi eftir því hvort viðskiptavinirnir eru almennir fjárfestar, fagfjárfestar eða viðurkenndir gagnaðilar.
EINSTAKIR FLOKKAR
2.1 Almennt
Skilgreiningu á einstökum flokkum er að finna í 45. gr. reglugerðar (ESB) 2017/565, nánar tiltekið:
1. Viðurkenndir gagnaðilar sbr. 2. mgr. 30. gr. tilskipunar 2014/65/ESB
2. Fagfjárfestar sbr. I. þátt II. Viðauka við tilskipun 2014/65/ESB
3. Almennir fjárfestar sbr. 24. gr. tilskipunar 2014/65/ESB
Sami viðskiptavinur getur verið flokkaður í tvo mismunandi flokka. Sem dæmi má nefna að ákveðinn viðskiptavinur getur verið flokkaður sem fagfjárfestir þegar kemur að viðskiptum með skuldabréf og skráð bréf en í viðskiptum með óskráð bréf getur hann verið flokkaður sem almennur fjárfestir svo að dæmi sé tekið.
2.2 Viðurkenndir gagnaðilar
Viðurkenndir gagnaðilar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eru þeir aðilar sem falla undir a, b eða c liði skilgreiningarinnar á fagfjárfestum í 14. tl. 1. mgr. 4. gr. laga 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga. Í því felst að eftirfarandi aðilar eru viðurkenndir gagnaðilar í skilningi laganna:
a. Aðilar, hér á landi eða erlendis, sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki, fjármálastofnanir, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna, staðbundnir aðilar og aðrir stofnanafjárfestar.
b. Stór fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða hvað varðar fjárhæðir, sem miða skal við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni:
1. Heildartala efnahagsreiknings er jafnvirði 20 millj. evra í ísl. krónum eða hærri.
2. Hrein ársvelta er jafnvirði 40 millj. evra í íslenskum krónum eða meiri.
3. Eigið fé er jafnvirði 2 millj. evra í íslenskum krónum eða meira.
c. Ríkisstjórnir, héraðsstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.
2.3 Fagfjárfestar
Í lögum um 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga eru fagfjárfestar skilgreindir sem:
Viðskiptavinur sem býr yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Eftirfarandi aðilar teljast fagfjárfestar:
a. Aðilar, hér á landi eða erlendis, sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki, fjármálastofnanir, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna, staðbundnir aðilar og aðrir stofnanafjárfestar.
b. Stór fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða hvað varðar fjárhæðir, sem miða skal við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni:
1. Heildartala efnahagsreiknings er jafnvirði 20 millj. evra í ísl. krónum eða hærri.
2. Hrein ársvelta er jafnvirði 40 millj. evra í íslenskum krónum eða meiri.
3. Eigið fé er jafnvirði 2 millj. evra í íslenskum krónum eða meira.
c. Ríkisstjórnir, héraðsstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.
d. Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðilar sem fást við verðbréfun eigna eða önnur fjármögnunarviðskipti.
e. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar skv. 54. gr.
Vakin er sérstök athygli á því að mat við flokkun fagfjárfesta eftir beiðni er samkvæmt ofangreindu tvíþætt, það er fyrst þarf að fara fram sjálfstætt mat á því hvort að sérfræðikunnátta reynsla og þekking sé nægjanleg og að því loknu þarf að meta hvort að viðskiptavinurinn uppfylli a.m.k. tvö þeirra skilyrða sem talin eru upp að ofan.
Aðilar sem ekki teljast fagfjárfestar geta óskað eftir því að vera fagfjárfestar og fer þá fram mat Arev.
Fagfjárfestar þurfa ekki að samþykkja flokkun sína, þeir þurfa eingöngu að samþykkja reglur um bestu framkvæmd.
2.4 Almennir fjárfestar
Almennir fjárfestar eru þeir sem ekki teljast fagfjárfestar né viðurkenndir gagnaðilar (hvort sem þeir fagfjárfestar teljast einnig viðurkenndir gagnaðilar eða ekki).
Fyrir utan það sem að ofan er talið er vakin athygli á því að Arev ber skylda til að gera skriflegan samning við alla þá almennu fjárfesta sem þiggja þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta hjá félaginu. Þetta á þó ekki við um þá sem eingöngu þiggja fjárfestingaráðgjöf. Í samningnum skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða viðvarandi viðskiptasamband eða einstök viðskipti.
RÉTTARÁHRIF FLOKKUNAR
Niðurstaða flokkunar hefur talsverð áhrif á samskipti og skyldur Arev verðbréfafyrirtækis gagnvart viðskiptavinum og verða áhrif flokkunarinnar útlistuð hér að neðan.
3.1 Viðurkenndur gagnaðili
Flokkun viðskiptavinar sem viðurkennds gagnaðila hefur í för með sér að [•] er heimilt skv. 22. gr. laganna að eiga viðskipti við þann viðskiptavin án þess að fullnægja þeim verndarskilyrðum sem mælt er fyrir um í 9., 14., 15., 16. og 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laganna. Í því felst eftirfarandi:
a. Arev er ekki skylt að gera skriflegan samning við viðurkennda gagnaðila þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur aðila í tilefni af því að Arev tekur að sér þjónustu fyrir gagnaðilann á sviði verðbréfaviðskipta.
b. Arev er ekki skylt að veita viðurkenndum gagnaðilum sem félagið býður þjónustu sína upplýsingar um félagið, fjárfestingarkosti eða áhættu. Þá er félaginu ekki skylt að veita upplýsingar um þóknun félagsins eða breytingar á þóknun. Að sama skapi er félaginu ekki skylt að veita viðurkenndum gagnaðila upplýsingar um réttarúrræði ef upp kemur ágreiningur.
c. Áður en Arev veitir viðurkenndum gagnaðila fjárfestingaráðgjöf eða sinnir eignastýringu er félaginu hvorki skylt að afla sér upplýsinga um þekkingu eða reynslu viðkomandi, né fjárhagsstöðu hans eða markmiða með fyrirhugaðri fjárfestingu. Það sama á við þó um aðra þjónustu en fjárfestingaráðgjöf eða eignastýringu sé að ræða.
d. Reglur 18. gr. um bestu framkvæmd sem mæla fyrir um skyldu Arev til að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína og setja sér verklagsreglur í þeim efnum gilda ekki þegar um viðurkenndan gagnaðila er að ræða.
e. Þá er Arev ekki skylt að gera ráðstafanir sem miðla að sanngjarnri og skjótri framkvæmd fyrirmæla viðskiptavina þegar um viðurkenndan gagnaðila er að ræða.
3.2 Fagfjárfestir
Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta þá áhættu sem þeim fylgir. Þar af leiðandi byggja lögin á því að fagfjárfestar þurfi ekki á sömu vernd að halda varðandi sínar fjárfestingar og almennir fjárfestar.
Hér er gerð grein fyrir þeirri vernd sem Arev er skylt að veita almennum fjárfestum annars vegar og viðurkenndum gagnaðilum hins vegar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Ganga má út frá því að sú vernd sem Arev þarf að veita fagfjárfestum sé á milli þess sem krafist er þegar um ræðir hina tvo flokkana. Í því samhengi má til dæmis nefna að 14. gr. laga um verðbréfaviðskipti, sem snýr að skyldum fjármálafyrirtækis varðandi upplýsingagjöf til viðskiptavina, gildir bæði gagnvart almennum fjárfestum og fagfjárfestum á meðan reglur 15. gr. laganna, um öflun upplýsinga og ráðleggingar vegna eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar, gilda ekki nema að litlu leyti um fagfjárfesta.
3.3 Almennur fjárfestir
Almennir fjárfestar njóta fullrar verndar samkvæmt fyrirmælum laga um verðbréfaviðskipti, þar með talið varðandi öll þau atriði sem undanskilin eru þegar um ræðir viðurkennda gagnaðila og talin eru upp hér að ofan. Í þessu felst m.a. að Arev er skylt að veita viðskiptavinum í þessum flokki upplýsingar um:
- Arev og þá þjónustu sem boðið er uppá og úrræði viðskiptavinarins;
- þá fjárfestingakosti sem eru í boði og þá áhættu sem fylgir hverjum;
- þau gjöld og þóknanir sem fylgja hverjum fjárfestingakosti.
Þá er vakin athygli á því að almennum fjárfestum er heimilt að óska eftir því að verða flokkaðir sem fagfjárfestar. Við slíka flokkun er viðskiptavinur að afsala sér hluta sinna réttinda og verndar skv. lögum um verðbréfaviðskipti. Til þess að slík beiðni verði tekin til greina verður viðskiptavinur að veita Arev ákveðnar upplýsingar og slík flokkun er háð samþykki Arev.
GILDISTAKA
Reglur þessar taka gildi við undirritun stjórnar Arev. Jafnframt fellur úr gildi stefna um sama efni frá 2024.
Samþykkt á fundi stjórnar hinn 20. mars 2025.