Hæfi lykilstarfsmanna

Reglur Arev verðbréfafyrirtækis hf. um hæfi lykilstarfsmanna

Almennt

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga, leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2010, um hæfi lykilstarfsmanna, og reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 247/2017, um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila.

Markmið

Markmið þessara reglna er að stýra sértækum áhættum tengdum rekstri og orðspori Arev verðbréfafyrirtækis hf. („Arev“) með því að tilgreina lágmarkskröfur um hæfi þeirra starfsmanna sem skilgreinast sem lykilstarfsmenn.  Þær kröfur sem til þeirra eru gerðar eru þó þær sömu og gerðar eru til annarra starfsmanna, enda leggur Arev ríka áherslu á að allt starfsfólk á vegum Arev búi yfir fullnægjandi færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að inna af hendi þau verkefni sem þeim eru falin. Þá sérstök áhersla lögð á að starfsfólki sé kunnugt um þær reglur og verkferla sem fylgja skal.

Lykilstarfsmenn

Samkvæmt 7. tölul. 1. gr. b. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er lykilstarfsmaður skilgreindur sem einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu félagsins.

Að mati stjórnar Arev er ekki hægt að skilgreina tiltekinn hóp starfsmanna hjá félaginu sem  lykilstarfsmenn heldur þarf að meta það í hverju tilviki fyrir sig. Stjórn sker úr komi upp vafaatriði við mat á því hvort starfsmaður eigi að teljast lykilstarfsmaður eða ekki.

Um þessar mundir er Jón Sch. Thorsteinsson eini lykilstarfsmaður fyrirtækisins.

Sérstaða lykilstarfsmanna

Auk reglna þessara og allra verklagsreglna Arev, þá gilda eftirfarandi sérreglur um lykilstarfsmenn:

  1. Takmarkanir á fyrirgreiðslum til lykilstarfsmanna og aðila í nánum tengslum við þá, sbr. reglur nr. 247/2017.
    1. Takmarkanir á starfslokasamningum, sbr. 57. gr. b. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    1. Þá skal í ársreikningi skal tilgreina fjölda lykilstarfsmanna, auk upplýsinga um heildargreiðslur og hlunnindi þeirra, sbr. 3. mgr. 87. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Hæfisskilyrði

Lykilstarfsmaður skal ætíð uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Búa yfir fullnægjandi færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að inna af hendi þau verkefni sem honum eru falin. Í því sambandi skal menntun og starfsferill viðkomandi kannaður og árangur hans í fyrri störfum. Lykilstarfsmaður skal hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.  Lykilstarfsmaður skal jafnframt hafa lokið grunnnámi í bókhaldi.
    1. Hafa óflekkað mannorð og ekki hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm á síðustu tíu (10) árum fyrir refsiverðan verknað, eða hafa sýnt af sér aðra háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa viðskiptahætti hans eða siðferði.
    1. Vera lögráða og fjárhagslega sjálfstæður og má ekki á síðustu fimm (5) árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota.

Verði breytingar á högum eða stöðu lykilstarfsmanns, sem kunna að hafa áhrif á hæfi hans, ber honum skylda til að tilkynna tafarlaust um slíkt til framkvæmdastjóra eða regluvarðar. Leiki vafi á að starfsmaður uppfylli framangreind skilyrði, skal hann ekki talinn hæfur sem lykilstarfsmaður og því ekki hafa umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu Arev.

Mat á hæfi

Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn og ber ábyrgð á störfum þeirra og metur hæfi lykilstarfsmanna. Framkvæmdastjóra er heimilt, með samþykki stjórnar, að fela utanaðkomandi aðila að framkvæma mat á hæfi.

Við mat á því hvort einstaklingur uppfylli hæfisskilyrði 5. gr. skal fara fram bæði hlutlægt og huglægt mat. Hlutlægt mat felst í að kanna skilyrði um lögræði, menntun og hreint sakarvottorð. Huglægt mat felst m.a. í að meta hvort menntun og starfsreynsla viðkomandi hæfi þeirri stöðu sem um ræðir, sem og leggja mat á þekkingu, fjárhagslegt sjálfstæði og mannorð starfsmanns.

Meta skal starfsferil einstaklings með tilliti til þess hvort hann hafi sætt rannsókn opinberra eftirlitsaðila, hvort höfðað hafi verið mál á hendur honum, hvort réttmætar kvartanir hafi beinst gegn honum vegna eftirlitsskyldrar starfsemi og hvort honum hafi verið sagt upp störfum vegna athafna sinna eða athafnaleysis. Meta skal framangreind atriði út frá því hvort að viðkomandi aðili geti gegnt stöðu sinni á trúverðugan og forsvarslegan hátt, sem og út frá orðsporsáhættu og hvort fyrri háttsemi sé til þess fallin að draga í efa hæfni viðkomandi eða að hann muni hugsanlega misnota aðstöðu sína eða skaða Arev.

Þekking og skilningur einstaklings á lögum og reglum fjármálamarkaðarins skal könnuð og skal þá við það miðað að væntanlegur lykilstarfsmaður skuli hafa klárað löggildingu til verðbréfamiðlunar. Framkvæmd hæfismats samkvæmt ákvæði þessu getur farið fram með munnlegu og/eða skriflegu prófi og/eða með fundi með viðkomandi lykilstarfsmanni. Upplýsa skal með hæfilegum fyrirvara um próf eða fund, sem og þau viðfangsefni sem könnuð verða þar. Eftir slíkt próf eða fund skal lagt mat á hvort lykilstarfsmaður hafi nægilega þekkingu og skilning á þeim lögum og reglum sem til skoðunar hafa verið og hvort hann teljist hæfur að öðru leyti með hliðsjón af hæfisskilyrðum laga og reglna þessara.

Einstaklingi er skylt að veita, í tengslum við þetta mat, allar upplýsingar, sem Arev metur nauðsynlegar, t.d. afhenda sakavottorð, skuldbindingayfirlit, skattskýrslur, yfirlit yfir verðbréfaviðskipti o.fl.

Niðurstöður hæfismats

Framkvæmdastjóri skal eins fljótt og við verður komið tilkynna viðkomandi starfsmanni og regluverði skriflega hvort starfsmaður hafi staðist hæfismat og geti talist lykilstarfsmaður. Niðurstaðan skal vistuð hjá regluverði ásamt viðeigandi gögnum.

Standist starfsmaður ekki hæfismat er framkvæmdastjóra heimilt að gefa honum kost á að endurtaka matið innan fjögurra vikna frá því niðurstaða liggur fyrir. Hafni starfsmaður því að endurtaka mat eða standist hann ekki endurtekið hæfismat telst viðkomandi ekki hæfur í viðkomandi starf hjá Arev.

Þátttaka lykilstarfsmanna í stjórnun og atvinnurekstri

Um þátttöku starfsmanna Arev í stjórnun og atvinnurekstri er fjallað um í starfsreglum stjórnar og gilda viðkomandi ákvæði í þeim verklagsreglum einnig um aðkomu lykilstarfsmanna.

Við mat á því hvort þátttaka í stjórnun eða atvinnurekstri teljist samrýmanleg starfi lykilstarfsmanns, skal horfa til stöðu viðkomandi innan Arev sem og til þess hvort slík þátttaka komi niður á heilindum og vinnuframlagi hans, auk þess sem horft skal til þess hvort að slík þátttaka geti falið í sér hugsanlega hagsmunaárekstra eða er líkleg til að skaða orðspor Arev.

Vanhæfi lykilstarfsmanna við meðferð einstakra mála

Lykilstarfsmönnum er óheimilt að taka þátt í meðferð máls innan Arev er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga virkan eignarhlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í, nema um sé að ræða dótturfélög Arev. Sama gildir um þátttöku lykilstarfsmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega. Þegar lykilstarfsmaður tekur til starfa skal hann gera regluverði grein fyrir þeim aðilum sem hann tengist með þeim hætti sem að framan greinir. Einnig skal lykilstarfsmaður tilkynna regluverði um allar breytingar sem verða á lista yfir þá aðila sem honum tengjast.

Lykilstarfsmaður með réttarstöðu grunaðs manns í sakamáli

Lykilstarfsmanni ber að tilkynna framkvæmdastjóra eða regluverði fái hann réttarstöðu grunaðs, s.s. samkvæmt lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála hjá sérstökum saksóknara, ríkislögreglustjóra eða öðru ákæruvaldi. Með réttarstöðu grunaðs er verið að veita aðilum rétt til að svara ekki spurningum um ætlaða refsiverða háttsemi sem hann er sakaður um, en viðkomandi hefur ekki á þeim tímapunkti hvorki verið ákærður né dæmdur.

Framkvæmdastjóri og regluvörður skulu meta stöðu viðkomandi lykilstarfsmanns innan Arev með það fyrir augum hvort víkja eigi honum úr starfi, senda hann í leyfi eða aðhafast ekkert. Við slíkt mat skal m.a. litið til stöðu viðkomandi lykilstarfsmanns innan Arev og alvarleika hins meinta brots, sem og orðspor Arev.

Skráning lykilstarfsmanna

Regluvörður skal halda skrá yfir lykilstarfsmenn. Í skránni skal koma fram hvaða stöður viðkomandi gegna og hvers vegna þeir teljist til lykilstarfsmanna. Regluvörður skal halda utan um þau gögn sem aflað er vegna hæfismats lykilstarfsmanna, þ. á m. innra mat Arev á hæfi viðkomandi.


Gildistaka

Hæfismat á þeim starfsmönnum sem teljast til lykilstarfsmanna við gildistöku reglna þessara skal lokið innan 3ja (þriggja) mánaða frá gildistöku þeirra.

Reglur þessar skulu birtar á heimasíðu Arev ásamt lista yfir lykilstarfsmenn.

Reglur þessar taka gildi við undirritun stjórnar Arev. Jafnframt fellur úr gildi stefna um sama efni frá 2024.

Samþykkt á fundi stjórnar hinn 20. mars 2025.

Scroll to Top