Ársmeðaltal fjölda ferðamanna er nú ríflega 2,1 m manna. Spáin gerir ráð fyrir að meðaltalið fari í 2 m. manna um mitt ár 2020 og í 1,9 m. manna ári síðar. Þrátt fyrir örlítið fleiri ferðamenn í desember en Arev hafði spáð hefur það lítil sem engin áhrif á spá Arev.
Vinstri ás myndarinnar hér til hliðar sýnir, að fram á mitt ár 2017, hélt ársmeðaltal áfram að aukast. Á árinu 2017 snerist þetta við. Í desember 2019 komu 8,6% færri ferðamenn en árið á undan. Við það lækkaði ársmeðaltalið um 0,5%. Meðaltalið er nú ríflega 2,1 m. Arev ætlar að það verði komið í 2,0 m. um mitt ár 2020 og 1,9 m. ári síðar eins og myndin sýnir.
Arev setti svo upp tvær aðrar sviðsmyndir. Samkvæmt bjartsýnu sviðsmyndinni (grænu línunni) mun meðaltalið falla í rúmlega 2 m. um mitt ár 2021 og byrja svo að vaxa á nýjan leik. Skv. svartsýnu sviðsmyndinni (gulu línunni) mun meðaltalið falla í rúmlega 1,8 m. um mitt ár 2021 áður en það byrjar að vaxa á nýjan leik.
Loks er hér til hliðar mynd er sýnir tengsl raungengis og ferðmannafjölda. Gula línan sýnir raungengi íslensku krónunnar og brúna línan fjölda ferðamanna. Mikil aukning ferðamanna á undanförnum árum hefur aukið mjög spurn eftir framleiðsluþáttum svo sem vinnuafli og þrýst upp raungenginu. Ekki er að sjá að lækkandi raungengi hafi áhrif á fjölda ferðamanna. Margir hafa bent á að brúna línan á myndunum þremur minni á ferðamannalíkan Butlers 1 sem fjallar um líftíma einstakra ferðamannastaða. Líkan Butlers er vissulega góðra gjalda vert og margir ferðamannastaðir endurspegla hugmyndir þess ágætlega. Líkanið hefur hins vegar ekkert tölfræðilegt gildi enda setti Butler það fyrst og fremst fram til að lýsa æviskeiðum ferðamannastaða.